Thursday, February 14, 2008

Læknisferð

Úps... gleymdi mér aðeins.

Ég hefði betur sleppt því að dissa veturinn hérna í Vín. Það er búið að vera óhugnalega kalt síðustu daga. Hitinn er í kringum frostmark sem væri svo sem ekkert hræðilegt ef það væri ekki svona mikill raki. Núna er 72% raki og það var miklu meira í gær. En það er enginn vindur þannig að það er ekki hægt að kvarta mikið. Ég hef lesið oftar en einu sinni að Vín sé frekar vindasöm. Ég veit ekki hvað fólkið sem hefur sagt það myndi kalla Ísland því það er örsjaldan einhver vindur hérna.
En nóg af veðrinu. Ég skammast mín fyrir það hvað ég hef mikinn áhuga á veðri. Ég hljóma stundum eins og gamall, íslenskur bóndi. Ég hef það líklega frá föður mínum.





Ég fór til læknis í morgun. Það var mjög áhugaverð upplifun. Ég var mætt til hans kl. 8:40 og var þá annar sjúklingur dagsins. Ég veit ekki alveg hvernig sjúkratryggingakerfið virkar hérna í Austurríki en það eru allavega einhver stig á því. Þeir sem eru meira tryggðir en aðrir panta sér tíma hjá ákveðnum læknum á ákveðnum tímum. Síðan eru það þeir sem eru í neðsta sæti í kerfinu og mæta þeir hjá ákveðnum læknum (sem segjast taka við öllum) á ákveðnu fyrirframgefnu tímabili og þurfa að bíða þangað til læknirinn er laus. Þetta gerir það að verkum að allir mæta sem fyrst og þurfa síðan að bíða allan daginn eftir því að fá að tala við lækninn. Biðstofurnar eru þess vegna uppfullar af fólki sem hefðu getað sparað sér biðina ef það hefði bara mátt panta tíma. Mér finnst þetta mjög asnalegt kerfi og ég skil ekki alveg tilganginn með því að láta veikt fólk bíða tímunum saman eftir lækni. En ég var ótrúlega heppin því að læknirinn minn, Dr. Weindl, opnaði kl. 8:30 og ég var komin á undan öllum hinum sjúklingunum. Ég þurfti þess vegna ekki að bíða lengi. Þegar ég var búin var biðstofan troðfull af fólki.
Mér fannst líka frekar fyndið að Dr. Weindl var ekki með neinn í afgreiðslunni til að skrá sjúklingana inn heldur gerði hann það sjálfur. T.d. tók skráningin mín örugglega tíu sinnum lengri tíma en sjálft viðtalið. Hann hefði því getað sparað sér umtalsverðan tíma með því að hafa ritara. Annað sem mér finnst spes með læknana hér í Vín er að þeir eru venjulega með stofurnar sínar í venjulegum íbúðarhúsum. Þeir hafa þá kannski keypt eða leigt venjulega íbúð og eru þær oft mjög gamlar, dimmar og litlar. Það er þess vegna ekki mjög traustvekjandi að koma inn á þessar stofur hérna.



Það sem mér fannst einnig frekar magnað í þessari upplifun minni var hvað evrópska sjúkratryggingakortið er mikilvægt. Bæði hjá lækninum og í apótekinu var ég spurð hvort ég væri nokkuð tryggð í Austurríki. Ég sýndi þá bara kortið mitt og það var eins og ég hefði dregið fram lögregluskilríki því á báðum stöðum lippaðist fólkið niður í undirgefni og gerði allt sem ég bað um. Ég mæli þess vegna eindregið með því að fólk fái sér svona kort :).

Morgundagurinn verður vonandi mjög skemmtilegur. Segi ykkur frá því seinna.

1 comment:

Anonymous said...

Hæ Ferðalína Flökkudóttir!
Ég er að skoða bloggið þitt úr splúnkunýju glæsitölvunni minni.
Það gekk eindæma vel að setja hana upp og Vista stýrikerfið kemur á óvart, hvað það er miklu auðveldara en ég átti von á. Það eru eldeilis ævintýrin hjá þér upp á hvern dag. Hlakka til að lesa um Helgu kvikmyndastjörnu.
Góða nótt.
Knús og kel mamma