Thursday, February 28, 2008

Búið

Þá eru tökurnar því miður búnar. Mér finnst það ótrúlega sorglegt því það var svo gaman. (Varúð! Framundan er mjög væmið efni). Eftir sitja þó minningarnar og fólkið sem ég er búin að kynnast. Og ef ég verð búin að gleyma þessu öllu þegar ég er orðin gömul þá get ég huggað mig við það að fæturnir mínir munu bera þess merki ævilangt að hafa þurft að standa klukkutímunum saman í óþægilegustu skóm á jarðríki.

Veðrið er ennþá frábært hérna. Hiti 13,5°C og mjög lítill vindur. Það er líka byrjað að koma smá grænt á trén hérna :). Ég og Rannveig nýttum því góða veðrið til þess að versla enda kominn tími til að kíkja á sumartískuna.

Ég ætla að enda þetta á nokkrum myndum af settinu sem ég laumaðist til að taka síðasta daginn.

Bis später, Helga



Snjókoma í litlu götunni

Inni á kaffihúsinu Momus
Fyrir utan Café Momus

Hattabúðin


Ég í litlu götunni



Í litlu götunni

Moi

P.s. Þið verðið að afsaka ef Íslenskan mín er orðin eitthvað bjöguð. Þetta er það besta sem ég get gert eins og er. :)

Monday, February 25, 2008

Smá update...

Það er 18°C hérna núna. Já sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað?

Myndir

Hér koma nokkrar myndir af settinu og frá því í gær.


Anna Netrebko og ég


Póker (Lukas a.k.a Helmut, Anna og einhver gaur)




Die Mädels (Anna og Simone)





Hárið mitt


Ég, Rannveig og Valla fórum í garðinn í Schönbrunn í gær. Við settumst á grasið, spiluðum og borðuðum ávexti og nammi. Það var alveg ótrúlega gott veður framan af degi. Við vorum léttklæddar og alveg að kafna úr hita. Austurríkisbúunum fannst hins vegar ekki eins heitt. Þeir voru ennþá í vetrarúlpunum, með húfur og trefla. Við stelpurnar þurftum síðan að kyngja okkar íslenska stolti þegar sólin lækkaði í lofti og viðurkenna að það væri kannski full kalt til þess að vera í sumardressinu. Við fórum síðan á japanskan veitingastað í Hütteldorf sem heitir Yume. Mæli með honum.


Update 14.04.08: Þessi mynd var tekin út vegna fjölda áskorana.

Gellurnar í Schönbrunn


Við og einhver gosbrunnur



Sætu sætu vinkonurnar mínar

Friday, February 22, 2008

Stuð að eilífu...

Já, það er ennþá jafnmikið stuð á settinu og áður. Í dag voru ekki allir sem áttu að mæta þannig að það var frekar fámennt. Við vorum að taka upp þriðja þátt en hann á að gerast í febrúar. Það var þess vegna notaður gervisnjór og ég verð að segja að ég fékk smá heimþrá. Við fengum svo að fara heim kl. 17.30 og ég og vinkona mín af settinu ákváðum að nýta tækifærið og fá okkur sushi. Ég þarf svo að vera mætt kl. 7.30 á morgun þannig að ég ætla að drífa mig í bælið.
Annars er rosalega gott veður hérna núna, 14,5°C og það er spáð allt að 20°C á sunnudaginn.
Bis später,
Helga

Wednesday, February 20, 2008

La Bohème

Vá, ég skulda ykkur ekkert smá feita færslu. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.

Það er líklegast bara best að byrja á byrjuninni. Ég mætti semsagt í kvikmyndaver í 23. hverfi að morgni föstudagsins síðasta. Ég þurfti að vera mætt kl. 6. Já, þið lásuð rétt, kl. 6!!! Það þýddi að ég þurfti að vakna kl. 4 því það tekur mig ca. klukkutíma að komast þangað. Fyrir ykkur sem hafið ekki heyrt frá mér þá var ástæðan fyrir þessari ferð í kvikmyndaverið sú að ég er stadisti í kvikmynd sem er verið að taka upp. Það er semsagt verið að taka upp La Bohème eftir Puccini og eru mega frægar stjörnur að leika í henni, þau Anna Netrebko og Rolando Villazón. Þegar ég kom þangað á föstudagsmorgun vorum við send beint í hár og förðun og við fórum í búninga. Við erum í svona "period" búningum, þ.e. búningum sem líkjast tískunni um aldamótin 1900. Hárið var gert í sama stíl og eru flestar konurnar líka með hatta. Förðunin var líklegast líka í svipuðum stíl, þ.e. ég var nánast ekkert máluð. Þegar við vorum búin að öllu þessu var okkur smalað eins og íslenskum sauðkindum í sal þar sem voru bekkir og borð. Þar var hægt að fá morgunmat, eða allavega eitthvað sem Austurríkisbúar kalla morgunmat, en það samanstendur af Semmel (sem að er eins konar fransbrauðsrúnstykki) og marmelaði. Ég þarf nú ekkert að segja ykkur að ég borðaði ekki mikið af því.


Semmel

Við tók svo mjög löng bið. Ég tók með mér bók til að lesa og settist á borð með einhverjum gömlum körlum sem reyndu nokkrum sinnum að tala við mig en ég þóttist ekki heyra í þeim því ég skildi ekki orð af því sem þeir sögðu. Ég hef komist af því á síðustu dögum að ég er alveg ágæt í "í söngtíma"-þýskunni en ég kann ekkert, og þá meina ég virkilega EKKERT, í "tala við ókunnuga"-þýskunni. Við vorum svo kölluð á settið um kl. 11.30. Það var ekkert smá mikil upplifun að koma á alvöru kvikmyndasett. Það var búið að byggja þrönga götu með fullt af húsum, búðum, kaffihúsinu Momus, portum og göngum, bara alveg eins og alvöru gata í París í lok 19. aldar. Það kom mér reyndar á óvart að þetta var allt miklu minna en ég hélt. Göturnar eru þrengri heldur en venjulegar gamlar götur, húsin aðeins minni o.s.frv. Við vorum svo látin æfa okkur í því að vera gangandi vegfarendur og svo var byrjað að taka upp. Það kom mér líka mjög mikið á óvart hvað þetta tekur rooooosalega langan tíma. Við þurfum að bíða svo ótrúlega lengi á milli hverrar töku. Sem dæmi þá er tekið á hverjum degi örugglega bara ca. 4 mínútur af myndinni sjálfri. Skórnir sem ég er í eru líka mjög óþægilegir, það óþægilegir að mig var byrjað að svima af verkjum fyrsta daginn.

Við vorum svo send nokkrum sinnum í pásu og í mat. Við erum fóðruð um kl. 15 á hverjum degi og er maturinn í stíl við morgunmatinn, einhver austurrískur viðbjóður sem samandstendur oftast af miklu kolvetni og vel unnu kjöti. Jæja, svo um eftirmiðdaginn þegar ég var búin að vera að lúðast með bókina mína tróðu sér þrír strákar (sem leika stúdenta í myndinni) á borðið mitt og til mikillar lukku nenntu að tala við mig. Upphófst þar vinskapur mikill sem leiddi svo til þess að ég kynntist fullt af fleira fólki. Það kom mér nokkuð á óvart að Austurríkisbúar eru ekki svo slæmir, þeir eru bara svolítið skemmtilegir. Fyrsti dagurinn leið síðan bara nokkuð hratt og vorum við send heim kl. 23 um kvöldið. Já, þá var ég búin að vera á settinu í 17 klukkutíma. Ég var gjörsamlega búin á því og fæturnir á mér voru að íhuga það mjög alvarlega að fara í verkfall. Tilhugsunin um að fá að fara heim að sofa hélt mér þó á lífi. Það var því frekar mikið sjokk að fá að vita það að ég þyrfti að mæta kl. 8 daginn eftir, sem þýddi það að ég fékk að sofa í 5 og hálfan tíma.


Pókerspilarar

Ég var þó stillt og góð kind og mætti daginn eftir bara frekar hress þrátt fyrir svefnleysið. Dagurinn gekk svo nokkuð svipað fyrir sig nema að það voru mun lengri pásur og við fengum að fara heim kl. 21. Annar dagurinn var þess vegna miklu auðveldari. Þegar ég mætti í biðsalinn buðu stúdentarnir mér að spila póker og eins og ekta íslenskt hörkukvendi varð ég að taka þátt í því. Síðan þá höfum ég, ein önnur stelpa og stúdentarnir spilað póker í næstum öllum hléum og höfum mjög gaman af.

Við fengum frí á sunnudaginn. Ég var ekki svo gáfuð að eyða honum í hvíld og afslappelsi heldur fór ég með R í ræktina, æfði mig að syngja og lærði. Ég var orðin síðan svo "upptunuð" um kvöldið að ég gat ekki sofnað og svaf bara í tvo tíma um nóttina. Ég þurfti svo að vakna kl. 6 og vera mætt kl. 8 á mánudaginn. Ótrúlegt en satt þá var ég bara nokkuð hress og það gekk vel að halda sér vakandi yfir pókerspilunum.

Dagurinn í gær var svo frekar fáránlegur. Ég var mætt klukkan rúmlega 8 í kvikmyndaverið og fór í hina daglegu förðun, hárgreiðslu og búningaskipti. Kvikmyndatökuliðið þurfti þó ekki á okkur að halda fyrr en um kl. 17.30 sem þýddi að við þurftum að bíða allan daginn. Við fengum svo að fara kl. 18.30. Svefnleysið síðustu daga var farið að segja til sín og ég var alveg að sofna allan daginn.

Stadistarnir ákváðu svo fara á einhvern "bar" strax á eftir og fylgdi ég auðvitað með. Þegar við komum á staðinn reyndist þó þetta vera einhver hörku neðanjarðarnæturklúbbur. Mér leist nú ekki alveg á blikuna, mér fannst þetta frekar hallærislegt og sérstaklega því við vorum fyrsta fólkið sem mætti á staðinn. Ég bjóst við að Scooter færi fljótt að hljóma í hátölurunm og var alveg tilbúin að flýgja við fyrsta tækifæri. Staðurinn fylltist þó fljótlega og var gjörsamlega pakkaður um miðnætti. (Halló! Það var þriðjudagur). Tónlistin var líka bara nokkuð góð enda var seventies og eighties kvöld. Mér til mikillar furðu var bara mjög gaman og mikið stuð. Einn af stúdentunum var síðan svo góður að skutla mér heim um tvöleytið og rotaðist ég gjörsamlega þegar ég lagðist á koddann.

Ég ætla svo að nota daginn í dag í hvíld enda veitir ekki af. Ég fer svo í söngtíma á morgun og aftur í kvikmyndaverið á föstudag.

En svona hafa síðustu dagar liðið. Ég vona að þið séuð sátt við þessar ítarlegu upplýsingar. Ég ætla svo að reyna að vera duglegri að taka myndir á föstudag og laugardag en vinkona mín úr kvikmyndinni sendi mér nokkrar áðan.

Bis später, Helga



Saturday, February 16, 2008

Í dag...

... var ógeðslega gaman. Hef ekki orku í að segja meira.
Yfir og út,
Helga

Thursday, February 14, 2008

Læknisferð

Úps... gleymdi mér aðeins.

Ég hefði betur sleppt því að dissa veturinn hérna í Vín. Það er búið að vera óhugnalega kalt síðustu daga. Hitinn er í kringum frostmark sem væri svo sem ekkert hræðilegt ef það væri ekki svona mikill raki. Núna er 72% raki og það var miklu meira í gær. En það er enginn vindur þannig að það er ekki hægt að kvarta mikið. Ég hef lesið oftar en einu sinni að Vín sé frekar vindasöm. Ég veit ekki hvað fólkið sem hefur sagt það myndi kalla Ísland því það er örsjaldan einhver vindur hérna.
En nóg af veðrinu. Ég skammast mín fyrir það hvað ég hef mikinn áhuga á veðri. Ég hljóma stundum eins og gamall, íslenskur bóndi. Ég hef það líklega frá föður mínum.





Ég fór til læknis í morgun. Það var mjög áhugaverð upplifun. Ég var mætt til hans kl. 8:40 og var þá annar sjúklingur dagsins. Ég veit ekki alveg hvernig sjúkratryggingakerfið virkar hérna í Austurríki en það eru allavega einhver stig á því. Þeir sem eru meira tryggðir en aðrir panta sér tíma hjá ákveðnum læknum á ákveðnum tímum. Síðan eru það þeir sem eru í neðsta sæti í kerfinu og mæta þeir hjá ákveðnum læknum (sem segjast taka við öllum) á ákveðnu fyrirframgefnu tímabili og þurfa að bíða þangað til læknirinn er laus. Þetta gerir það að verkum að allir mæta sem fyrst og þurfa síðan að bíða allan daginn eftir því að fá að tala við lækninn. Biðstofurnar eru þess vegna uppfullar af fólki sem hefðu getað sparað sér biðina ef það hefði bara mátt panta tíma. Mér finnst þetta mjög asnalegt kerfi og ég skil ekki alveg tilganginn með því að láta veikt fólk bíða tímunum saman eftir lækni. En ég var ótrúlega heppin því að læknirinn minn, Dr. Weindl, opnaði kl. 8:30 og ég var komin á undan öllum hinum sjúklingunum. Ég þurfti þess vegna ekki að bíða lengi. Þegar ég var búin var biðstofan troðfull af fólki.
Mér fannst líka frekar fyndið að Dr. Weindl var ekki með neinn í afgreiðslunni til að skrá sjúklingana inn heldur gerði hann það sjálfur. T.d. tók skráningin mín örugglega tíu sinnum lengri tíma en sjálft viðtalið. Hann hefði því getað sparað sér umtalsverðan tíma með því að hafa ritara. Annað sem mér finnst spes með læknana hér í Vín er að þeir eru venjulega með stofurnar sínar í venjulegum íbúðarhúsum. Þeir hafa þá kannski keypt eða leigt venjulega íbúð og eru þær oft mjög gamlar, dimmar og litlar. Það er þess vegna ekki mjög traustvekjandi að koma inn á þessar stofur hérna.



Það sem mér fannst einnig frekar magnað í þessari upplifun minni var hvað evrópska sjúkratryggingakortið er mikilvægt. Bæði hjá lækninum og í apótekinu var ég spurð hvort ég væri nokkuð tryggð í Austurríki. Ég sýndi þá bara kortið mitt og það var eins og ég hefði dregið fram lögregluskilríki því á báðum stöðum lippaðist fólkið niður í undirgefni og gerði allt sem ég bað um. Ég mæli þess vegna eindregið með því að fólk fái sér svona kort :).

Morgundagurinn verður vonandi mjög skemmtilegur. Segi ykkur frá því seinna.

Friday, February 8, 2008

Afrek dagsins

Ég fór í ræktina í dag og ákvað að taka nokkrar myndir af umhverfinu mínu í leiðinni. Það var aðeins kaldara í dag en á miðvikudaginn en samt ekkert til að kvarta yfir enda var glaðasólskin. Ég tók þessar myndir þegar ég var á leiðinni heim úr U6.

Fyrsta myndin er af Volksoper sem er staðsett í ca. 3 mín göngufæri frá íbúðinni minni.



Þetta er tré sem er á leiðinni heim. Á vorin koma rosalega flott ljósbleik blóm á það. Á sumrin verður það hinsvegar dökkrautt og ekki nærri því jafn flott. Mér var sagt að þetta væri Kirsuberjatré en það koma samt engin kirsuber á það. Ég ætla að reyna að taka mynd af því aftur í vor þegar bleiku blómin eru komin.


Þarna er svo húsið mitt. Nei, það er ekki þetta flotta hvíta heldur þetta piparmyntugræna bakvið. Mér var sagt þegar ég flutti inn að húsið væri 100 ára gamalt. Ég veit ekki hvort ég eigi alveg að trúa því, það er allavega búið að endurnýja það þónokkuð mikið. Stóra gráa húsið bakvið húsið mitt er svo hluti af AKH (Algemeinis Krankenhaus). Þegar þyrlur koma á sjúkrahúsið fljúga þær beint yfir húsið mitt þannig að það drynur í því. Ég ímynda mér þá alltaf að það séu fullt af læknum á þakinu sem bíða eftir líffærum, alveg eins og í Grey's Anatomy :). Ég held að þetta sé frekar frægt sjúkrahús enda er það hið stærsta í Austurríki og með hæstu sjúkrahúsum í heimi.


Hérna er svo gatan mín, Tendlergasse. Piparmyntuskrímslið sést hér til hægri.



Þessi mynd er svo tekin frá glugganum mínum. Glugginn snýr beint að AKH og sé ég inn í einhvern matsal. Þessi mynd verður hluti af fyrir-eftir myndaseríunni minni í vor. Á sumrin sést ekki í AKH fyrir trénu.


Síðasta myndin er svo tekin undir U6 línunni (U6 er nefnilega mestmegnis ofanjarðar ólíkt öðrum neðanjarðarlestum). Þarna inni eru semsagt pissuskálar sem ég sá í dag að eru nokkuð mikið notaðar. Ástæðan fyrir því að ég tók þessa mynd er orðið "Pissoir" sem mér finnst ótrúlega fyndið og skemmtilegt.



En nú ætla ég að hætta þessu. Ég er með heimabakaða pizzu í ofninum sem ég ætla að tileinka móður minni því hún fann upp á heimabökuðum-pizzu-föstudögum okkur pabba og Árna til mikillar ánægju.

Að lokum kemur getraun dagsins: Með hverjum og hvað heitir lagið sem byrjar á setningunni "Home alone and happy, nothing brings me down." Sá sem svarar rétt fær í verðlaun fría gistingu í Vín í óákveðinn tíma.

Wednesday, February 6, 2008

Vetur?

Nei, come on. Það voru 14°C í dag og það er varla búið að fara niður fyrir frostmark síðan ég kom. Ég sé mikið eftir því að geta ekki verið á Íslandi í veðrinu sem er búið að vera þar. Mér skilst hins vegar að flestir séu búnir að fá leið á því.
Að lokum, nokkrar veðramyndir.
Fyrsta myndin var tekin á Mariahilferstrasse í dag. Þar var ekkert veður.


Svona lítur Vín út á Vorin. Ahhh... hlakka til.



Og svo er hér mín yndislega fósturjörð. Pabbi tók myndina í sumarbústaðnum okkar rétt hjá Borgarnesi.


Góðar stundir.

Tuesday, February 5, 2008

Bolludagur, Sprengidagur, Öskudagur


Hin heilaga þrenning er gengin í garð. Bakaðar voru bollur af íslensku sið á sunnudaginn. Það gekk ágætlega nema að bollurnar lyftu sér ekki nóg og smökkuðust þær því álíka og gerdeigsbollur. Ég kenni austurríska lyftiduftinu um, en eins og svo margt matarkyns frá Austurríki er það alltof veikburða. Til dæmis er varla bragð af saltinu hérna og rjóminn vill ekki þeytast.
Það er frekar erfitt að búa til íslenskan sprengidag hérna. Í fyrsta lagi langar mig bara í íslenskt lambakjöt (ég hef reyndar aldrei séð austurrískt lambakjöt í boði en það hlýtur samt að vera til), í öðru lagi hef ég ekki séð þessar hefðbundnu baunir sem þarf í réttinn og í þriðja lagi þá kann ég engan veginn að búa til saltkjöt og baunir. Ég ætla því hér með að biðja mömmu um að búa til hefðbundinn sprengidagsmat þegar ég kem heim um páskana. Hér í Austurríki kallast sprengidagur Fastnacht og er það síðasti dagur fyrir föstuna sem endar svo á páskunum. Ég veit ekki hvað þeir borða á þessum degi en það hlýtur að vera eitthvað mikið og gott. Nágrannarnir mínir virðast allavega vera að skemmta sér vel því ég heyri tónlistina í gegnum pappírsþunnu veggina hérna.
Öskudagurinn (þýs. Aschermittwoch) virðist svo vera nokkuð svipaður og heima á Íslandi. Í Gerngross verslunarmiðstöðinni hafa búningar verið seldir þannig Vínarbúarnir hljóta að halda einhvers konar grímuball. Við sjáum svo til hvort ég fái einhver syngjandi og sníkjandi börn í heimsókn á morgun.

Blogg?

Ótrúlegt en satt, ég er búin að búa til bloggsíðu. Ég er ekki ennþá búin að taka ákvörðun um það hvort ég ætli að gera þetta, hvort ég ætli að leyfa öllum að lesa um mig. En þar sem ég skoða blogg annara á hverjum einasta degi þá fannst mér það vera kominn tími til að gefa eitthvað til baka. Sjáum til hvernig þetta mun ganga.