Tuesday, March 11, 2008

Nýja færslu segiði...

Síðustu dagar hafa verið mjög viðburðaríkir. Ég og Rannveig ákváðum að gerast túristar á sunnudaginn. Það var nú kominn tími til því það er til skammar hvað við erum búnar að sjá lítið af þessum markverðu stöðum í Vín. Útaf því að það var sunnudagur var náttúrulega tilvalið að kíkja í kirkjugarð :). Fyrir valinu var Zentralfriedhof sem er stærsti kirkjugarðurinn í Vín og næst stærsti kirkjugarðurinn í Evrópu.




Til þess að komast í kirkjugarðinn þurftum við að ferðast nokkuð langt (miðað við að garðurinn er staðsettur í Vín). Á leiðinni sáum við gleraugnabúð sem greinilega endurnýjar gluggaútstillingarnar sínar ekki mjög oft. (Sjá mynd að ofan) Mental note: Aldrei flytja í 11. hverfi.

Í kirkjugarðinum stóra er staðsett mjög flott kirkja. Dr. Karl Lueger-Gedächtniskirche. Í kjallaranum eru fullt af grafreitum sem fjölskyldur hafa keypt. Myndin hér að neðan er af okkur Rannveigu í kirkjunni.




Þegar við vorum búnar að skoða kirkjuna rækilega lá leið okkar að gömlu gyðingagröfunum. Það var frekar sorglegt að ganga í gegnum þennan hluta kirkjugarðsins. Allar grafirnar eru mjög illa farnar vegna þess að enginn hefur séð um þær. Legsteinar eru margir annaðhvort hallandi eða alveg fallnir á jörðina og maður sér ekki suma legsteina lengur vegna gróðurs. Ég hef lesið að ástæðan fyrir þessu er sú að fjölskyldurnar séu ekki lengur "til staðar" til þess að sjá um grafirnar. Einn Austurríkisbúi sagði hins vegar að það væri ekki til siðs í gyðingdómi að fara að grafreitum. Ég held hins vegar að þetta sé enn eitt dæmi um afneitun Austurríkisbúa en þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að vilja ekki tala um hluti sem eru óþægilegir. En þetta er bara mín skoðun sem getur auðvitað verið bandvitlaus. Hér að neðan sjást nokkrar myndir af gyðingagrafreitunum.



















Þegar við vorum búnar að skoða gyðingasvæðið þá ákváðum við að skoða búddistagrafirnar. Þær voru frekar spes og við skildum hvorki upp né niður í grafsiðum þeirra. Hér að neða sést búddasvæðið.








En það sem var auðvitað merkilegast að sjá voru kaþólsku grafirnar sem eru í meirihluta í kirkjugarðinum. Vínarbúar eru víst mjög helteknir af dauðanum og eru margir sem safna fyrir útför sinni alla ævi. Það var mjög áhugavert að sjá að einstaklingar hafa ekki sér grafreit heldur er öll fjölskyldan saman og þá með mjög stóra og flotta legsteina. Ég sá nokkrar Richter fjölskyldur sem ég hefði kannski getað troðið mér með en ég held að ég vilji bara láta jarða mig á hinu látlausa Íslandi. Þetta var aðeins of mikið.




Þessi gröf var frekar spooky. Það var smá rifa á hurðinni.






Þessi fjölskylda er pottþétt frá Týrol.

Þegar við vorum búnar að ganga um garðinn í nokkra klukkutíma án þess að finna allt fræga fólkið sem er jarðað þar þurftum við að fara heim því von var á pókerfélögum mínum úr La Bohéme um kvöldið. Við ákváðum því að fara aftur í kirkjugarðinn seinna og vera þá búnar að kynna okkur betur hvar idolin okkar (t.d. Schubert, Beethoven, Brahms ofl.) liggja.

Að lokum koma tvær myndir frá pókerkvöldinu alræmda.


Bis bald, Helga

P.s. Ég skulda ykkur færslu um þáttinn sem ég var að leika í í gær. Kemur kannski í kvöld eða á morgun en bara ef þið eruð nógu dugleg að commenta.

3 comments:

Anonymous said...

Kommentikommentikommenti :) Færslu um þáttinn takk ;D
Hlökkum alveg rosalega til að fá þig heim á föstudaginn!!!
Knús
Tinna, Árni og Anna Valgerður

Anonymous said...

Vá hvað það er alltaf gaman hjá ykkur þarna í Vín. Þú ljómar eins og sólin á öllum myndum. Það verður ekkert smágaman að fá þig heim. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur pabba þínum.
Þetta eru 2 kommet bæði frá mér og pabba.
knús mamma

Anonymous said...

Það þorir greinilega enginn að kommenta á gyðingagrafreitina. Það er alveg sjokkerandi að sjá hvað niðurníðslan er alger miðaða við hina hefðbundu kaþólsku grafreiti. Það er svolítið erfitt að skilja að það sé siður hjá þeim að afkomendur látinna gyðinga skuli ekki hugsa um grafreitina. Hvers vegna létu þeir þá setja svona veglega og flotta legsteina? Það hlýtur að vera að þessir afkomendur eru ekki þarna lengur. Það er auðvitað misjafnt hvað fólk fer mikið í kirkjugarðinn til að minnast hinna látnu en að það sé svona mikil niðurníðsla bara hjá gyðingum, það stendst ekki. Skil vel að þetta hefur haft áhrif á ykkur að sjá þetta.
Knús mamma