Ég hafði enga hugmynd um hvernig þáttur þetta væri áður en ég mætti á svæðið. Við vorum 8 stadistar og allt fólk sem hafði verið í La Bohéme þannig að þetta var voða næs og heimilislegt. Eftir nánari yfirheyrslur komst ég að því að þetta er gamanþáttur sem er sýndur á ORF1 sem er fyrsta sjónvarpsstöð Austurríska Ríkisútvarpsins. Þátturinn samanstendur af stuttum "sketchum", kannski ekki ólíkt Spaugstofunni eða Fóstbræðrum. Þættirnir eru tiltölulega nýjir (var byrjað að sýna þá 2007) og eru sýndir á fimmtudagskvöldum. Ég held að þeir séu nú ekkert sérstaklega vinsælir ennþá. Alllavega höfðu allir Ausutrríkisbúarnir, sem ég spurði, aldrei séð þá.
Ég fékk símtal frá casting skrifstofunni daginn áður og var látin vita að ég þyrfti að koma með eigin búninga. Ég átti að koma með tvo jakka/kápur, sem máttu ekki vera svartir og svo sexý diskóföt, sem máttu einnig ekki vera svört. Upphófst því mikill hausverkur yfir vali á fatnaði. Þeir sem þekkja mig vita nefnilega að flest í mínum fataskáp er kolsvart. Mér tókst þó á endanum að taka með mér tvær fullar töskur af fötum og skóm. Ég var mætt kl. 9 á endastöð U6 línunnar og þar beið okkar maður sem vinnur við þættina. Þaðan tókum við strætó til bæjar suður af Vín sem heitir Mödling. Upptökurnar fóru fram í gamla miðbænum og ég verð að segja að ég hef sjaldan séð jafn sjarmerandi stað, allt mjög austurrískt og krúttlegt.
Við tók náttúrulega hin hefðbundna bið og make-up. Ég veit ekki alveg hvaðan þau hafa fengið förðunarfræðinginn því ég leit út eins og kynskiptingur eftir hana. Við byrjuðum svo að vinna um hádegisbil. Við áttum að leika mótmælendur og vorum við með kröfuspjöld, undirskriftalista og þess háttar. Ég skildi nú ekki alveg hverju við vorum að mótmæla en mér skilst að það hafi verið framkvæmdir sem höfðu áhrif á dýralíf einhverra froska. Ég fékk síðan að gera aðeins meira en hinir :). Ég fékk að labba að manni sem hefði verið sleginn niður og vera sjokkeruð á meðan allir hinir stóðu bara kyrrir. Leikstjórinn hrósaði mér síðan fyrir leikræna tilburði og staðsetningu. Mér fannst þetta allt frekar fyndið því ég hef nú aldrei verið þekkt fyrir afburða leikhæfileika og líka vegna þess að tvær af stelpunum sem voru stadistar eru að læra leiklist við einhvern kvikmyndaskóla hér í borg. Ég held að þær hafi ekkert verið sérstaklega ánægðar.
Þegar klukkan var eitthvað í kringum 14 fengum við að vita að okkar vinnu væri lokið og að við þyrftum ekki að vera í diskóatriðinu. Ég var mjög fegin enda hafði val á þessum sexý diskófötum valdið mér miklum sálrænum skaða. Ég og einn af pókerfélögum mínum ákváðum því að nýta sólina sem skein þennan dag og fengum okkur að borða úti á einu kaffihúsinu í Mödling. Hér að neðan er ein mynd sem ég tók frá kaffihúsinu af miðbæ Mödling.
Eins og við var að búast er ég orðin mjög fræg í Austurríki. Ég kom í sjónvarpinu í gær þegar var verið að sýna þátt sem fjallaði um La Bohéme og hafði ég þar áður sést tvisvar í ríkissjónvarpinu. Síðan á náttúrulega eftir að sýna stórleik minn í Die 4 da og svo kemur La Bohéme vonandi út sem fyrst. Svona er líf stórstjörnunnar í dag.
Bis bald, Helga
No comments:
Post a Comment