Thursday, July 31, 2008

EM í Vín

Eins og flestir vita var EM í fótbolta í Austurríki og Sviss þetta árið. Vín var gjörsamlega hertekin af fótboltaaðdáendum, fótboltabullum, fótboltaauglýsingum, fótboltalögreglum, sem sagt FÓTBOLTA. Fyrir þá sem eru vanir Vín án fótbolta var þetta frekar pirrandi. Á stóru svæði, sem inniheldur meðal annars Ráðhúsið, Þinghúsið, hluta af Hofburg, Burgtheater og svo stóran bita af hringnum*, var sett upp svæði kallað Fan Meile þar sem voru staðsettir margir risaskjáir, fullt af veitingabásum og risastórt svið. Þar af leiðandi hættu allir sporvagnar að ganga sem fara hringinn, mér til mikilla ama. Hins vegar var mjög gaman að fara og horfa á leikina á Fan Meile.

Frá Fan Meile

Það var í raun ótrúlegt, þegar tekið er tillit til þess hversu lítinn áhuga ég hef á fótbolta, hvað ég fór á marga leiki. Ég held bara hreinlega að ég hafi séð eitthvað frá öllum leikjunum. Þegar leið á var ég þó farin að fara á veðskrifstofur til þess að veðja nokkrum evrum á leikina til þess að gera þetta meira spennandi. Ég get mjög stolt upplýst að ég tapaði aldrei!


Frá Fan Meile

Með fyrstu leikjunum sem ég horfði á var Austurríki-Króatía. Ég gerðist mjög austurrísk, keypti stóran fána sem ég bar á herðum mér, lét lita austurríska fánann á kinnarnar, söng hástöfum "Immer wieder, immer wieder, immer wieder Österreich" og gekk niður að Stephansplatz. Þegar þangað var komið blasti skelfileg sjón við. Miðbærinn var gjörsamlega troðfullur af Króötum í vígahug. Við gengum í gegnum þvöguna og okkur var vægast sagt ekki vel tekið. Eftir nokkrar góðar tilraunir til að styðja okkar lið flúðum við í 12. hverfi og horfðum á leikinn í heimahúsi.


Helga að styðja sitt lið


Þrátt fyrir þessa eldraun fannst mér þetta mjög áhugavert. Austurríkisbúarnir virtust ekki hafa neinn áhuga á að flagga þjóðerni sínu. Á meðan okkur Íslendingum finnst ekkert sjálfsagðra en að finnast við vera best í heimi reyna Austurríkismenn að tala sem minnst um sitt eigið ágæti. Þjóðernishyggja varð nefnilega mjög viðkvæmt mál í Austurríki eftir seinni heimstyrjöldina. Og ekki bætti úr skák mál Natöschu Kampusch og Josef Fritzl.


Já, ég var með skikkju


Síðasti leikurinn sem Austurríki keppti var við Þýskaland. Ég breytti ekkert útaf vananum, klæddi mig í fánann, setti meiköppið á og söng. Þegar ég kom niður í bæ var stemningin allt önnur. Loksins komu Vínarbúarnir útúr húsum sínum og studdu sitt lið. Því þó að Austurríkisbúum finnist ekki mikils til síns koma, eru þeir alveg pottþéttir á því að vera betri en Þjóðverjar. Eftir að Austurríki féll svo út kepptust Vínarbúar við að styðja þau lönd sem voru að keppa á móti Þýskalandi. T.d. þegar úrslitaleikurinn (Spánn-Þýskaland) fór fram, voru líklega um 90% af stuðningsmönnum Spánar í Vín Austurríkisbúar.


Sumir voru með meira make-up en aðrir :)

Þetta var allt mjög skondið að sjá fyrir lítinn og saklausan Íslending. En þetta minnti mig óendanlega mikið á ríginn á milli Íslands og Danmörku :).

Bis später,

Helga


*Hringurinn er einstefnugata sem liggur í kringum Innere Stadt (gamla bæinn). Áður fyrr var þar borgarmúr.

Update

Það er svo margt sem hefur gerst síðan síðast að ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja. Ég er að spá í að gera bara nokkra minni pistla til þess að auðvelda mér lífið aðeins.

Friday, July 25, 2008

Jeminn eini.....

Er svona langt síðan ég bloggaði. Ég lofa betri tíð með blóm í haga. En ekki samt í dag, það er of gott veður.

Skelli hér inn einni mynd fyrir bloggþyrsta.




Bis sehr bald,
Helga